Svo virðist sem að nær vikulega sé bent á nýjan vanda sem steðjar að mannkyninu og öðrum dýrum jarðar. Vísindamenn hafa nú vaxandi áhyggjur af vanda sem fæstir hafa leitt hugann að: fosfórskorti.

Nauðsynlegt en óendurnýjanlegt steinefni

Fosfór er steinefni sem er  nauðsynlegt fyrir bæði dýr og plöntur. Efnið spilar lykilhlutverk í orkuflutningi innan frumna og er eitt af byggingarefnum erfðaefnis okkar.  Fosfór er mikilvægt í myndun beina og tanna í mannslíkamanum og spilar einnig hlutverk í eðlilegri starfsemi nýrna, vöðvasamdrætti og viðhaldi á eðlilegum hjartslætti. Að auki er fosfór mikið notað í áburði til þess að auka afköst í ræktun nytjaplantna.

Vandinn er sá að fosfór er óendurnýjanlegt efni sem þýðir að þær birgðir fosfórs sem nú eru á jörðinni eru endanlegar. Líkt og með svo margt annað gengur mannkynið afar hratt á fosfórbyrgðir heimsins. Svo hratt að hópur 40 sérfræðinga hefur gefið út viðvörun þess efnis að svo gæti farið að allar fosfórbyrgðir heimsins klárist eftir ekki svo langan tíma. Þessum áhyggjum er líst í grein sem birtist í tímaritinu Environmental Science & Technology fyrr á árinu.

Ekkert fosfór eftir 40 ár?

Eftirspurn eftir fosfóri hefur farið hratt vaxandi á undanförnum áratugum. Á síðustu 50 árum hefur notkun þess í áburði aukist fimmfalt. Eftir því sem mannkyninu fjölgar má búast við því að eftirspurn eftir forsfóri aukist. Áætlað er að eftirspurnin muni hafa tvöfaldast árið 2050.

Að sögn sérfræðinga á þessu sviði erum við afar illa undirbúin undir skort á fosfóri. Ekkert samstarf á heimsvísu sé til staðar eins og staðan er í dag, þrátt fyrir að svartsýnustu spár segi að við munum klára þekktar fosfórbyrgðir á næstu 40 árum. Bjartsýnni spár gefa okkur 80 ár eða jafnvel 400 áður en byrgðirnar eru uppurnar.

Hver svo sem árafjöldinn verður eru höfundar rannsóknanna nær allir sammála um að hér sé um að ræða brýnan vanda sem þarfnast meiri athygli.

Endurvinnsla á fosfóri mikilvæg

Augljós leið til að auka endingu fosfór birgða heimsins er að draga úr notkun á efninu. Einnig mun reynast mikilvægt að endurnýta fosfór eins og hægt er. Aðferðir til að vinna fosfór hafa lítið breyst síðan við byrjuðum á því.

Í dag eru efnablöndur sem innihalda fosfór almennt aðeins nýttar einu sinni í jarðvegi sem skortir næringarefni. Eftir notkunina er þeim skolað út og enda í hafinu.

Þetta er ekki aðeins slæmt út frá stöðu fosfórbyrgða heimsins heldur hefur fosfórmengun í hafinu slæmar afleiðingar fyrir lífríki þar. Þekkt er að sum svæði hafsins hafa orðið að einskonar dauðasvæði þar sem fiskar geta ekki þrifist.

Lokuð kerfi lykilatriði

Sérfræðingar telja að best sé að koma í veg fyrir þau vandamál sem talin eru hér að ofan með því að útbúa lokuð kerfi fyrir nýtingu á fosfóri. Áætlað er að hægt sé að endurnýta fosfór allt að 46 sinnum. Þetta á meðal annars við um fosfór í fæðu og í áburði.

Í dag eru slík kerfi ekki til staðar og hvetja höfundar greinarinnar til þess að því sé breytt. Þeir leggja til að áhersla sé lögð á að iðnaður og yfirvöld komi upp nefnd sem samanstendur af nýrri kynslóð sérfræðinga í sjálfbærni næringarefna sem unnið geti gegn vandanum.

Lykilatriði samhliða vaxandi fólksfjölda

Eftir því sem mannfólki fjölgar á jörðinni verður sífellt mikilvægara að finna leiðir til fæða alla þessa munna. Fosfór er eitt fárra efna sem hefur þá sérstöðu að birgðir þess á plánetunni eru endanlegar. Því er lykilatriði að hugað sé vel að þeim birgðum sem eftir eru og tilvist fosfórs sé ekki tekin sem gefnum hlut.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.