Við þekkjum flest orðið þau margvíslegu áhrif sem búist er við að hamfarahlýnun hafi á jörðina. Hækkandi hitastig, súrnun sjávar og öfgar í veðurfari eru þekkt fyrirbæri sem vísindasamfélagið er að langmestu leyti sammála um að við munum upplifa á komandi áratugum ef ekkert er að gert.

Þrátt fyrir vaxandi þekkingu á þessu sviði vitum við langt því frá allt um það hvaða áhrif hamfarahlýnunar koma til með að hafa á lífríki jarðar. Meðal þess sem í dag er afar illa þekkt eru áhrif þessara breytinga á smæstu lífverur jarðar og hvaða keðjuverkun þær munu hafa í för með sér. Meðal þessarra lífvera eru sníkjudýr sem spila stærra hlutverk í vistkerfum plánetunnar en marga grunar.

Útbreidd en illa þekkt

Afar erfitt er að meta fjölda sníkjudýra en áætlað er að þau gætu talið meira 50% dýrategundar jarðar. Óhætt er að segja að þessi dýraflokkur sé einn sá óvinsælasti enda geta sníkjudýr haft neikvæð áhrif á flestar tegundir dýra, þar með talið mannfólk.

Hátt í 300 sníkjuormar eru þekktir í mönnum og er metið að ein af hverjum þremur manneskjum á jörðinni sé sýkt af ormi, oft án þess að vita af því. Þrátt fyrir svo mikla útbreiðslu eru sníkjudýr enn að miklu leyti illa þekkt. Þetta á ekki síst við þegar kemur að því hvaða áhrif breytingar á umhverfinu, líkt og hlýnandi loftslag, hafa á þessar lífverur.

Sníkjudýr algengir sjúkdómsberar

Meðal þeirra sem rannsakað hafa áhrif breytinga á vistkerfum sníkjudýra er sníkjudýravistfræðingurinn Chelsea Wood. Wood byrjaði að rannsaka áhrif fiskveiða fyrir um 15 árum síðan og sagði á þeim tíma að nánast ekkert væri vitað um áhrif iðjunnar á sníkjudýr. Í dag segir hún stöðuna ekki mikið hafa breyst og að við vitum í raun nær ekkert um það hvaða áhrif breytingar á vistkerfum komi til með að hafa á þenna stóra hluta dýrategunda jarðar.

Margar tegundir sníkjudýra geta borið með sér eða valdið smitsjúkdómum á borð við malaríu og  toxóplasma. Þessi staðreynd veldur Wood og öðrum vísindamönnum áhyggjum vegna þess hversu lítið við vitum um það hvaða breytingar á loftslagi geti haft á útbreiðslu þekktra sjúkdóma sem og tilkomu nýrra sjúkdóma.

Ekki aðeins sjúkdómsvaldandi sníkjudýr sem geta haft áhrif

Fyrir utan tegundir sem leggjast á okkur mennina er fjöldan allan af sníkjudýrum að finna sem lítil sem engin áhrif hafa á mannfólk eða dýrategundir sem okkur þykja mikilvægar. Það er ekki þar með sagt að hrun slíkra stofna eða óhófleg fjölgun í þeim komi ekki til með að hafa áhrif á vistkerfi jarðar.

Rannsókn frá árinu 2017 metur það svo að af 457 tegundum sníkjudýra sem rannsóknin tók til komi 10% þeirra til með að deyja út fyrir árið 2070 vegna loftslagsbreytinga. Þegar tillit var tekið til útdauða af völdum útdauða hýsla sníkjudýranna áætluðu módel í rannsókninni að allt að 30% sníkjuorma kæmu til með að deyja út. Hver áhrif slíks stofnhruns yrðu er afar óljóst en líklegt þykir að áhrifin geti verið víðtæk.

Viðkvæmt jafnvægi

Fyrir þá íbúa plánetunnar sem lítið treysta á náttúruna í sínu daglega lífi er oft erfitt að gera sér í hugarlund hvernig breytingar á einum litlum hlekk í vistkerfi getur haft í för með sér afleiðingar fyrir vistkerfið í heild sinni. Staðreyndin er þó sú að jafnvægi vistkerfa er afar mikilvægt og auðvelt getur verið að raska því.

Með þeim breytingum sem búist er við í kjölfar hamfarahlýnunar af mannavöldum er margt ófyrirséð. Breytingar á útbreiðslu og áhrifum sníkjudýra er aðeins einn af mörgum óvissuþáttum sem mannkynið kemur til með að takast á við á næstu áratugum en minnir okkur á það hversu lítið við vitum í raun og veru um hvað koma skal.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.