Hamfarahlýnun hefur þegar farið að hafa margvísleg áhrif á plánetuna. Qatar er eitt þeirra landa sem glímir nú við óvenjuhátt hitastig. Svo hár hefur hitinn orðið að ákveðið hefur verið að kæla ákveðin svæði utandyra með því að notast við loftkælingabúnað.

Áætlað er að með hlýnandi loftslagi muni Mið-Austurlönd verða einna verst fyrir barðinu á hitanum. Í Qatar hefur meðalhitinn þegar hækkað um 2°C á meðan hitinn á heimsvísu hefur hækkað um 0.8°C. Vegna þessa hefur þetta auðuga ríki ákveðið að reyna að gera líf íbúa sinna bærilegra með því að koma upp lofkælingabúnaði á ákveðnum fjölförnum svæðum. Hafist hefur verið handa við að koma upp loftkælingu á svæðum á borð við markaði og íþróttavelli.

Þó hugmyndin kunni í fyrst að hljóma nokkuð góð í eyrum einhverra er hún ansi langt frá því. Þar ber helst að nefna að loftkæling virkar afar illa á opnum svæðum. Fyrir utan það að vera afar óhagkvæm leið til að kæla umhverfið er loftkælingabúnaður einnig mjög slæmur fyrir umhverfið.

Það krefst mikillar orku að nota loftkælingabúnað og á flestum stöðum þar sem slíkur búnaður er notaður kemur sú orka ekki frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Áætlað er að um 20% af rafmagni sem notað er í byggingum í heiminum fari í það að knýja lofkælingabúnað.

Það er ljóst að eftir því sem hitastig á jörðinni hækkar kemur þörfin fyrir loftkælingu til með að aukast á móti með tilheyrandi orkunýtingu. Þessi vandi verður ekki auðleystur og þetta vandamál minnir okkur enn og aftur á mikvægi þess að grípa til aðgerða til að takmarka hlýnun jaraðar eins mikið og hægt er.