Síðan stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur fóru loks að gera sér grein fyrir vánni sem fylgir hamfarahlýnun jarðar hafa ýmsar leiðir fyrir hinn almenna borgara dúkkað upp til að hjálpa okkur að minnka áhrif okkar á umhverfið. Ein þessara leiða er að greiða fyrir gróðursetningu trjáa um leið og við kaupum okkur flug til útlanda.

Þessi kostur hefur orðið sífellt vinsælli  eftir því sem við höfum orðið meðvitaðri um þau áhrif sem við höfum á umhverfið með hegðun okkar. En er raunhæft að bjarga heiminum frá hlýnandi loftslagi með gróðursetningu trjáa?

Þriðjungur alls kolefnis bundið í trén

Í rannsókn sem birtist í Science þann 5. júlí síðastliðin fjallar rannsóknarhópur undir forystu Jean-Francois Bastin um hvernig gróðursetning trjáa getur bundið stóran hluta þess kolefnis úr andrúmsloftinu. Raunar segja þau að með skilvirkri nýtingu landsvæðis sé hægt að binda um þriðjung alls þess kolefnis sem við höfum látið frá okkur síðan í iðnbyltingunni með trjám.

Rannsóknarhópnum reiknast svo til að í heimurinn sé að finna 0,9 milljarða hektara sem hægt væri að nota til að planta trjám og þannig mætti binda allt að 205 gígatonn af kolefni. Það er eins og áður kemur fram um það bil þriðjungur þess sem mannkynið hefur losað frá upphafi iðnbyltingar og gætum við því farið langt með að snúa við þeirri þróun sem við höfum nú þegar hrint af stað.

Of gott til að vera satt

Eins og með svo margt sem hljómar of gott til að vera satt þá er þetta líklega dæmi um slíkt tilfelli. Stuttu eftir að grein Bastin var birt tóku að heyrast efasemdaraddir úr röðum umhverfisvísindamanna sem bentu á annmarka rannsóknarinnar.

Fyrst ber að nefna að þó okkur takist að binda svona mikið kolefni þá er samt grunnurinn að því að þetta hafi áhrif að við minnkum losun gróðurhúsalofttegunda. Það ætti engum að dyljast að kolefni bundið í til dæmis jarðefnaeldsneyti í jörðinni fer betur geymt þar en endurunnið í trjám.

Tré binda kolefni misvel eftir því í hvernig jarðvegi og veðurfari þau eru. Af þeim sökum er ólíklegt að gróðursetning trjáa muni ná að binda þetta gríðarlega magn kolefnis, 205 gígatonn, en þær hugmyndir byggja á skilvirkustu mögulegu útkomu.

En hvar eiga trén að vera?

Hér kemur þó einnig fleira til, 0.9 milljarðar hektara lands er mjög mikið landými, jafn stórt og Bandaríkin, en þegar til á að taka er ekki endilega líklegt að  fyrsti kostur verði að gróðursetja tré.

Nú þegar vinnur mannkynið í því að fella skóglendi til að búa til hentuga akra til að rækta korn eða annað sem í flestum tilfellum er notað sem fóður í dýrin okkar. Þar að auki eru þeir auðu blettir sem hægt væri að nota undir tré nú þegar að binda kolefni í jarðvegi  eða nýttir fyrir annan gróður sem yrði rask á ef tré væru gróðursett í staðin.

Rask á þeim gróðri sem nú þegar er til staðar mun þar að auki hafa mikil áhrif á vistkerfin sem treysta á þessi tilteknu vistkerfi. Skaðinn sem hlýst af því að raska vistkerfunum á þennan hátt er engu minni en skaðinn sem vistkerfin verða fyrir í gegnum hamfarahlýnun.

Margt smátt gerir eitt stórt

Það er því ljóst, þó margir góðir punktar hafi veirð dregnir fram í grein Bastins að gróðursetning trjáa ein og sér dugar ekki til. Hvort sem við kolefnisjöfnum flugin okkar eða ekki þá er augljóst að besti kosturinn er að fækka þeim.

Við höfum sennilega ekki landrými til að gróðursetja öll tré sem eiga að svæfa samvisku okkar. Við getum hins vegar nýtt landrýmið betur sem nú þegar er ræktað, með því að borða meira af ræktuninni án milligöngu dýra og draga þannig úr orkunni sem fer í að rækta matinn okkar.

Ein góð og gullin regla gildir allt sem við tökum okkur fyrir hendur til að sporna gegn hamfarahlýnun, það er einfaldlega minni neysla.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.