Það þarf kannski ekki að færa mörg rök fyrir því að maðurinn er sú dýrategund sem hefur vinninginn þegar keppt er í hugviti. Að því er við best vitum erum við að minnsta kosti eina dýrategundin sem notar snjallsíma og keyrir bíla. Maðurinn hefur þó ekki alltaf lifað við þessar aðstæður og þær aðstæður sem við lifum við í dag eru órafjarlægar þeim raunveruleika sem frummaðurinn bjó við.

Fjölmargar breytingar eins og notkun á eldi og áhöldum hefur fleytt manninum áfram í þróun. Eitt af okkar stærri skrefum verður svo líklega að teljast þegar við hófum matvælarækt fyrir u.þ.b. 12 þúsund árum.

Svo fórum við að rækta

Að rækta sér mat var ótrúlega sniðug hugmynd. Í stað þess að safna og veiða var maturinn bara til staðar úti í garði eða á túni og auðvelt að ná sér í eitthvað gúmmelaði í pottinn. Með því að taka ábyrgð á því að maturinn okkar, hvort sem átt er við plöntur eða dýr, vaxi og dafni var maðurinn í raun líka að skapa fyrstu hugmyndir um hugtakið fæðuöryggi.

Þetta skref fleytti mannkyninu langt í átt að þeim munaði sem við búum við í dag. Þessi pistill er til að mynda skrifaður á tölvu, fyrirbæri sem fyrstu bændurna gat ekki órað fyrir að yrði til. En þrátt fyrir yfirburði mannsins, að eigin áliti, erum við ekki eina tegundin sem hefur tryggt sér fæðuöryggi með þessum hætti. Raunar eru þó nokkur skordýr sem leggja á sig töluverða vinnu til að rækta sér fæðu.

Hvað felst í ræktun matvæla?

Í röð rannsóknagreina frá rannsóknarhópi undir stjórn Guillaume Chomiki og E. Toby Kiers er saga skordýra sem rækta sér matvæli og rannsóknir á þeim rakin. Þetta uppátæki, að rækta sér matvæli, er flókið ferli og krefst skipulags. Það er því ekki úr vegi að velta fyrir sér hvað nákvæmlega felst í þessu.

Samkvæmt skilgreiningum rannsóknarhópsins telst það einungis til ræktunar sem uppfyllir eftirfarandi þætti:

1.     Því sem á að rækta er komið fyrir á fyrirfram valinn stað.

2.     Ræktandinn sér til þess að úr verði góð afurð sem ræktuð er af alúð.

3.     Ræktandinn nýtur góðs af þessari afurð.

4.     Afurðin eða uppskeran er nauðsynleg til að halda lífi í þeim sem ræktar hana.

Menn eru ekki einir um ræktun

Það sem þau dýr sem stund ræktun eiga sameiginlegt, fyrir utan að teljast til skordýra er að þau eru öll félagsdýr. Þessi dýr teljast til bjallna, termíta og maura, skordýra sem lifa saman í stórum hópum og hjálpast að við að lifa af harðneskju náttúrunnar.

Þar sem þó nokkuð fjölbreyttur hópur leggur stund á ræktun matvæla er næsta víst að þessi hegðun hefur þróast oftar en einu sinni og líklega jafnoft og fjöldi þeirra tegunda sem hana stunda, eða hafa stundað. Til að stunda slíka ræktun þarf skipuleg og kænsku og því ekki að undra að þau dýr sem leggja stund á slíkan búskap séu hópdýr. Félagslegt skipulag þeirra er einn stærsti þátturinn sem ræður því hvernig til tekst með að afla fæðu.

Bjöllur og termítar sem ræktar sveppi

Skordýrin sem mynda þessi bændasamfélög nota þó sumpart mismunandi leiðir í átt að sama markmiðið, að rækta sér fæðu. Svokallaðar ambrosia bjöllur, sem lifa mestmegnis í löndum við miðbaug, þar sem hita- og rakastig er hagstætt, hafa sérhæft sig í að nýta trjákvoðu til að rækta sveppi eða myglu sér til matar.

Bjöllurnar bora sér leiðir inní trjástofna og koma fyrir gróum úr sveppum sem þeim þykja girnilegir til átu. Sveppurinn nýtir næringu sem kemur frá trénu og bjöllurnar éta svo sveppinn. Langfæstar tegundir sem tilheyra þessum bjölluhópi ráðast á lifandi tré, heldur nýta sér dauða trjástofna til framleiðslunnar. Þetta gerir þær að mikilvægum hlekk í hringrás næringarefna í trjálendi, þar sem framganga þeirra hraðar niðurbroti trjágróðurs.

Termítar sem tilheyra ættkvíslinni Macotermitinae nýta sér aðra tækni til að ná í svipaða fæðutegund. Þeir byggja sér risatóra hóla úr leir, sem ná allt að eins metra hæð. Bygging hólanna að innan er mjög flókin og skiptast þeir í djúpa hella eða nokkurs konar pípulagnir sem þeir nýta fyrir ræktunina.

Inní þessar pípulagnir draga termítarnir dauðan gróður sem sveppurinn nýtir til næringar. Termítarnir og afkvæmi þeirra nærast svo á sveppnum sem hópurinn hefur lagt alúð við að rækta.

Maurar rækta plöntur

Maurar eiga það líka til að rækta sveppi sér til matar en meðal þeirra finnst eina dýrið sem vitað er um, utan mannsins, sem ræktar plöntur. Plönturæktun er að mati þeirra vísindahópa sem helst hafa skoðað þessa hegðun skör ofar en svepparæktun, enda krefst hún aðstæðna sem erfiðara er að fela. Plöntur þurfa sólarljós og súrefni, sem sveppir eru ekkert alltaf sérlega hrifnir af.

Að auki má segja að flækjustigið hafi aukist töluvert þegar maurarnir tóku að bera mykju í ræktunarjarðveginn. Mykja er nefnilega takmörkuð auðlind, þegar haughús eru fá, en maurarnir hafa ekki dáið ráðalausir og dreifa sínum eigin saur í jarðveginn til að efla vöxt matvælanna. Þannig hefur hringrás næringarefnanna lokast og úr verður eins sjálfbær ræktun og hún verður.

Heilmikið hugvit

Rannsóknir á maurategundum sem rækta sér plöntur til átu benda einnig til þess að maurarnir hafi kænsku til að velja í hvaða eiginleika plöntunnar þeir vilja toga. Í rannsókn sem birtist í byrjun í PNAS, febrúar 2020 er fylgst með maurum sem velja að rækta sér mat við sólríkar aðstæður til að hámarka framleiðsluna. Þetta veljamaurarnir þrátt fyrir tap á næringarefnum sem byggja á köfnunarefni.

Við ræktun á matvælum er að mörgu að hyggja, enda er ekki hægt að ná fram bestun á öllum eiginleikum lífverunnar, heldur þarf að velja hvaða kost á að setja fókusinn á. Það gæti þó aldrei verið að bændur í mannaheimum geti lært sitthvað af bændum í mauraheimum?

Greinin birtist fyrst í prentuðu riti og á vefsíðu Stundarinnar.