screen-shot-2017-08-17-at-21-29-38

Gæludýr eru mikilvægir fjölskyldumeðlimir á mörgum heimilum. Þau þurfa þó líkt og við mannfólkið að innbyrða fæðu og er hún í tilfelli hunda og katta aðallega samsett úr dýraafurðum.

Það hefur vart farið framhjá neinum að framleiðsla á kjötafurðum, sér í lagi framleiðsla á nautgripum, hefur stórt kolefnisfótspor. Þetta á ekki síður við um fæðuna sem hundar og kettir á heimilum okkar neyta og varpar ný rannsókn ljósi á kolefnisfótspor þessara vinsælu gæludýra.

Í rannsókninni voru umhverfisáhrif hunda og katta í Bandaríkjunum metin en talið er að fjöldi þeirra sé um 163 milljónir þar í landi. Samkvæmt útreikningum rannsóknarhópsins telur neysla þessara dýra allt að 30% umhverfisáhrifa vegna kjötframleiðslu í landinu.

Samkvæmt þessum niðurstöðum stuðlar neysla dýranna því að losun á um 64 milljón tonnum af koltvísýringi á ári sem samsvarar losun 13,6 milljón bifreiða.

Rannsóknarhópurinn segist ekki hvetja fólk til að losa sig við gæludýr sín eða setja þau á grænmetisfæði. Fremur vilji vísindamennirnir vekja athygli umhverfisáhrifum gæludýra svo hægt sé að leita leiða til að draga úr þeim.

Vísindamennirnir benda á að kjötið sem fer í framleiðslu gæludýrafóðurs sé gjarnan ekki nýtt til manneldis svo að miklu leyti er um aukaafurð að ræða. Þó er markaður fyrir gæludýrafóður í hærri gæðaflokki að aukast og þar sé kjöt í betri gæðum nýtt. Rannsóknarhópurinn leggur því til að frekari áhersla verð lögð á að nýta hvert dýr í kjötframleiðslu sem best og draga þannig úr bæði sóun og kjötframleiðslu.

Greinin birtist í tímaritinu PLOS One.